Atlantic er bardagaklúbbur þar sem brasilískt jiu jitsu (BJJ) er stundað af metnaði, fagmennsku og ástríðu. Klúbburinn var stofnaður á Akureyri árið 2020 af Tómasi og Rut, sem bæði eru svart belti í BJJ. Þjálfarar Atlantic búa yfir mikilli og víðtækri reynslu. Allir hafa þeir æft BJJ um langt skeið, með bakgrunn í þjálfun og/eða keppni.
Frá upphafi hefur markmið Atlantic verið skýrt: að byggja upp sterkt, öruggt og faglegt umhverfi þar sem fólk á öllum aldri og getustigum getur stundað BJJ æfingar.
Starfsemi Atlantic er fjölbreytt og miðuð að ólíkum hópum. Boðið er upp á æfingar fyrir fullorðna, unglinga og börn. Í barna- og unglingastarfi er lögð sérstök áhersla á öryggi, aga, sjálfstraust og virðingu, auk þess sem tæknin er kennd í gegnum leik, samvinnu og jákvæða upplifun. Fyrir fullorðna eru æfingar sem henta jafnt byrjendum sem lengra komnum, hvort sem markmiðið er almenn hreyfing eða keppnisundirbúningur. Atlantic býður einnig upp á sérnámskeið í sjálfsvörn fyrir vinnustaði, hópa og stofnanir. Þar er styrkur brasilísks jiu jitsu nýttur á hagnýtan hátt, með áherslu á samskipti og að takast á við áskoranir í öruggu og styðjandi umhverfi.
Samfélagið innan Atlantic er einn af hornsteinum klúbbsins. Þar hefur myndast öflugur og fjölbreyttur hópur fólks sem styður hvert annað, bæði innan og utan mottunnar. Andrúmsloftið einkennist af virðingu, jákvæðni og samheldni, þar sem allir eru hvattir til að leggja sitt af mörkum og vaxa á eigin forsendum. Hvort sem um ræðir nýliða eða reynda iðkendur, þá er lögð áhersla á að allir finni sig velkomna.
Í heild sinni er Atlantic meira en bara bardagaklúbbur. Hann er vettvangur fyrir persónulegan þroska, heilsueflingu og samfélagslega tengingu.
Æfingaraðstaðan er til fyrirmyndar!
Æft er á 3.hæð í húsakynnum líkamsræktarstöðvarinnar Norður. Æfingavöllur eru nýjar FUJI soft mottur og á staðnum er snyrtileg búningsaðstaða.
Öll velkomin að kíkja til okkar, skoða aðstöðuna og prófa æfingar.
Við mælum með grunnnámskeiði fyrir nýliða !
